Fyrirspurn um aðskilnað ríkis og kirkju og svarið mitt við henni

Mér barst þessi fyrirspurn á facebook síðunni minni :

http://www.facebook.com/home.php?#!/pages/6978-Gisli-Kr-Bjornsson-a-stjornlagabing/161054820600265  

"sæll mig langar að vita hver afstaða þín til kirkjunnar okkar er ? viltu aðskilnað kirkju og ríkis ?"

Og hér er svarið mitt:

Þetta þrætumál hefur vakið umræðu á nokkurra ára fresti. Í stjórnarskrám nágrannaríkja okkar eru ákvæði sem á einhvern hátt tryggja þjóðkirkju umfram önnur trúarbrögð, ég bendi í þessu samhengi á 66. gr. dönsku stjórnarskrárinnar og 2. gr. ...norsku stjórnarskrárinnar. Þessi ákvæði eru opin, álíka opin og okkar ákvæði í 62. gr. og fela í sér loforð ríkisins um stuðning. Það er þó hvergi minnst á fjárstuðning, heldur er í 3. mgr. 64. gr. ákvæði um að menn utan trúfélaga skuli greiða til Háskóla Íslands í stað þess að greiða til trúfélaga. Ég greiði t.d til Háskóla Íslands þar sem ég er ekki aðili að neinu trúfélagi, var skírður í Óháða söfnuðinn en gekk úr honum og er utan trúfélaga í dag. Það þýðir þó ekki að ég sé trúlaus, heldur bara það að ég vil ekki fá á mig stimpil trúfélaga.

Ég er andvígur mismunun hverskonar og tel að jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar eigi að gilda yrir stuðning ríkis við öll trúarbrögð. Í þessari afstöðu minni felst að ég tel að öll trúfélög eigi að sitja við sama borð þegar kemur að stuðningi. Þau ættu að mínu mati að fá jafnan fjárstyrk, jafna möguleika á helgihaldi og jafnan möguleika á kynningum. Að öðrum kosti er hætt við að þessi mál fari úr böndunum, og bendi í þessu samhengi á USA þar sem trúfélög „markaðssetja“ sig með öðrum hætti en hér gerist.

Ég tel að í sjálfu sér verði enginn ávinningur af því að skera á milli ríkis og kirkju sérstaklega, fæ ekki séð hvað ætti að skána við það varðandi trúmál. Sumir benda á að því fylgi mikil fjárútlát fyrir ríkið sem félli á skattgreiðendur. Að mínu mati er það ekki stóra málið, heldur það að það er ýmis þjónusta sem trúfélög sjá um í daglegu lífi fólks. Allir sem misst hafa einhvern nákominn þekkja það að eiga prest að á tímum sem þessum er dýrmætt, í því felst stoð sem margir hverjir upplifa ekki annars staðar. Við skilnað er fólki skylt að fá hjálp frá presti eða viðlíka persónu annarra trúfélaga. Það hefur hjálpað mörgum í hvora áttina sem er. Áföll, sem ekki gera boð á undan sér, líknarhjálp sem á sér stað á spítölum, sjúkra- og meðferðarstofnunum og annað slíkt, er ómetanleg hjálp óeigingjarns fólks sem réttir út hönd á raunastundu.

Hins vegar finnst mér skorta algerlega á gagnsæji í þessum málum sem öðrum. Þurfum við allar þessar kirkjur? Þurfum við alla þessa presta? Þurfum við öll þessi brauð? Þetta er spurning sem við verðum að spyrja okkur, auk þess að sammælast um í nýjum sáttmála þjóðarinnar um grunngildi að virða trú allra og tryggja jafnræði þeirra á milli.

Lokasvarið er því, nei, ég er andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju í þeirri mynd sem talað er um í dag, en já, ég er fylgjandi einhvers konar uppgjöri og áherslum um gagnsæji í nýrri stjórnarskrá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband