Svör mín við spurningum Samtakanna ´78
22.11.2010 | 10:52
1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?
Viðhorf mín til þessa fólks sem talið er upp í spurningunni, sem einhverra óréttmætra atvika vegna hefur orðið að sérhópum, eru í engu frábru gðin til annars fólks almennt. Eina krafan sem ég geri til fólks er að það sé sjálfu sér samkvæmt og heiðarlegt. Ég sé ekki mun á fólki eftir því hvern og af hvaða kyni það elskar eða hvort það telur sig af réttu kyni eður ei. Sem samfélag höfum við að mínu mati lofað allri aðstoð sem völ er á til að hverjum og einum geti liðið sem best. Því miður hefur samfélagið ekki getað heiðrað það loforð að fullu.
Öll erum við manneskjur og sem slíkar njótum við mannréttinda sem eru óaðskiljanleg hverjum og einum einstaklingi, óháð excel töflum sem t.d. vísindi, trúfélög, fræðimennska eða þröngsýni hafa búið til sem norm. Þessi norm henta alls ekki öllum, sumir afvegaleiðast á verri brautir, sumir líða mikla sálarkvöl og enn aðrir falla frá. Slíkt verður aldrei rakið til sérstöðu hvers einstaklings, heldur viðbragða samfélagsins við honum hverju sinni.
2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?
Ég mun heilshugar og af alefli styðja viðbótina um bann við mismunun vegna kynhneigðar í jafnræðishugtak stjórnarskrárinnar, en berjast af alefli gegn útilokun á því.
Ég óska jafnframt eftir fleiri ábendingum um hugtakaviðbætur varðandi jafnréttishugtakið.
3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?
Ég er jákvæður í garð allra sem það verðskulda sem góðar manneskjur fyrst og fremst. Ég hef alltaf stutt baráttu fólks sem vegna skilningsleysis samfélagsins eru settir í minnihlutahópa og geri það áfram, innan og utan stjórnarskrár
Kær kveðja,
Gísli Kr. Björnsson- #6978
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.