Mínar áherslur í nýrri stjórnarskrá- # 6978 Gísli Kr. Björnsson
24.11.2010 | 15:53
Kæru félagar,
Nú styttist í kosningar, þessar sögulegu kosningar sem gefa þér og okkur öllum vald til að setja okkur nýjan samfélagssáttmála. Ég ákvað í upphafi umræðunnar að bjóða mig fram til stjórnlagaþingsins, enda tel ég mig eiga fullt erindi þangað. Af hverju, kann einhver að spyrja? Jú ég get svarað því. Lífsreynsla mín er það fyrsta sem ég treysti á að skili góðum verkum í nýja stjórnarskrá. Ég hef gengið töluvert annað en hinn gullna meðalveg, ég tók nokkur skref út á við og sökk í hyldýpi áfengisneyslu sem mér tókst að krafla mig upp úr. Ég fór óhefðbundnar leiðir í menntamálum, stefndi alla tíð á lögfræði en staðnæmdist lengi vel í múrverki og húsasmíði. Ég sýndi snemma dugnað, árvekni og hef lifað sjálfstæðu lífi allt frá unglingsárum. Allt þetta, sem gróflega er dreypt á, ýtti undir og efldi rökhugsun mína sem aftur leiddi til þess að ég á auðvelt með að sjá brotalamir á samfélaginu sem mig langar til að lagfæra með nýrri stjórnarskrá.Og hverjar eru mínar áherslur í nýja stjórnarskrá?1. Að skerpt verði á þrígreiningu ríkisvaldsins. Að mínu mati eiga ráðherrar ekki að sitja á þingi. Þannig eru áhrif þeirra á lagasetningu of sterk, enda alþekkt sú staðreynd að þingmannafrumvörp daga uppi og verða að engu, á meðan að frumvörp ráðherra, svokölluð stjórnarfrumvörp, renna í gegn. Þetta hefur lamandi áhrif á störf Alþingis, en þingmenn eru hinir lýðkjörnu fulltrúar. 2. Að skerpt verði ábyrgð ráðherra og nýjar og sanngjarnar ákæruleiðir verði settar vegna ábyrgðar þeirra. Að mínu mati eiga að vera reglur um ábyrgð þingmanna einnig. Ábyrgðin á að vera þannig úr garði gerð að gerist ráðherra eða þingmaður sekur um brot á ábyrgðinni eigi hann að sæta refsingum. Áður en það er gert þarf að sjálfsögðu að sækja mál á hendur honum eftir skýrum og opnum reglum, en ekki reglum á borð við hinar óljósu og óskýru Landsdómsreglur sem finna má í dag.3. Að skilgreina skattaheimildir stjórnvalda. Í núverandi stjórnarskrá eru tvö ákvæði sem heimila ríkinu að krefjast skatta af þegnum þess, 40. gr. og 77. gr. Í 72. gr. er síðan eignaréttur manna viðurkenndur og kveðið á um að hann sé friðhelgur, þó með þeirri takmörkun sem þar er kveðið á um heimild til eignarnáms. Þó svo að almennt sé ekki litið á skatttöku sem eignarnám í skilningi 72. gr. þá hafa fræðimenn jafnan fjallað um tilgang og eðli skatta í skrifum um eignarétt. Þar er gjarnan talað um augnamið skattlagningar, tilgang skatta og svo fram vegis. Jafnan er einnig um það skrifað að þjóðnýting eigna sé ekki heimiluð á meðan eignaréttarákvæði stendur eins og það er. Að sama skapi ætti ríki ekki að vera heimilt að yfirtaka skuldir einstaklings eða ákveðins hóps manna á kostnað skattgreiðenda. Hér má þó ekki gæta Pollýönnuhugsunar, heldur að miðað verði við eitthvað hlutlægt til úrlausnar því hvort að það sé samfélaginu betra að það sé gert. Með öðrum orðum að slík vinna að baki ákvörðunar sem þessarar leiði til þess að a) þjóðin gæti haft eitthvað um það að segja, ég minni sterklega á Icesave málið í þessu samhengi, og að stjórnvöld sýndu að þau hefðu reynt aðra möguleika til þrautar fyrst. Þjóðin á ekki að vera varaventill eða ábyrgðaraðili fyrir fjármagnseigendur. Jafnframt ætti að vera sett samhengi á milli þess að skuldir einstaklings séu látnar falla á þjóðarbúið og heimildar til að ganga að eignum hans á grundvelli eignarnáms sem greiðslu fyrir ábyrgð þjóðarinnar. Þannig gætu aðilar sem slíkt stunda nú um mundir ekki leikið sama leikinn æ ofan í æ.
4. Málskotsréttur þjóðarinnar. Mikilvægt umfjöllunarefni þar sem íslenska þjóðin hefur margoft búið við það að ákvarðanir stjórnvalda renna í gegnum þingið án þess að þjóðin hefði nokkuð um það að segja. Nýlegir þjóðréttarsamningar sem við höfum undirgengist, t.d. á sviði umvherfisréttar, hafa ekki náð að styrkja þennan rétt. Einungis tvisvar hefur forseti beitt synjunarvaldi 26. gr. stjórnarskrárinnar, sami forsetinn í báðum tilvikum. Þennan rétt á þjóðin að hafa nái ákveðið hlutfall sér saman um að beita honum, þingmenn að fengnu ákveðnu hlutfalli og síðan forseti. Stjórnvöld hafa sýnt að þess er þörf, ráðamenn hlusta lítið á skoðanakannanir, jafnvel taka þeir ekki mark á fjöldamótmælum. Þessi réttur má þó ekki vera þannig að gangi yfir þjófabálk, það má ekki vera það auðvelt að beita honum að þjóðaratkvæði séu of tíð. Hóflegt hlutfall landsmanna, t.d. 15-25%, ákveðið hlutfall þingmanna, t.d. 35-50% eða svo ætti að minnsta kosti að þurfa til að krefjast megi þjóðaratkvæðagreiðslu.
5. Jafnræðishugtakið víkkað út. Jafnræðishugtakið verði þannig úr garði gert að það nái til allra, sé fyrir alla og gildi um alla. Þetta þarf ekki að hártoga mikið, bara að skilja.
6. Jafnræði trúfélaga styrkt. Ég hef talað fyrir því að jafnræði sé styrkt á milli trúfélaga, og með því móti að aðskilja á milli ríkis og kirkju þá tengingu sem er umfram ríkisins við önnur trúarbrögð. Ég tel að tilgangur trúmála sé of mikill og of náinn þjóðinni til að ríkið, s.s. samfélagið, styrki rekstur þeirra. Við þekkjum það öll að lenda í áföllum, einhver deyr, hjónaskilnaður skellur á, slys ber að höndum... svo ekki sé minnst á aðstæður eins og bankahrunið. Við aðstæður sem þessar skapast gríðarleg þörf hjá mörgum að leita sér sáluhjálpar. Starfsmenn trúfélaga hafa tjáð mér að ásókn í handleiðslu þeirra sé mikil og skipti tugum manna á mánuði sem leita sér slíks. Verði skilið á milli fjárstyrks ríkisvalds og trúfélaga er einsýnt að kostnaður við þetta lendi á einstaklingunum sjálfum sem eru þurfandi. Mörgum kann að þykja það sanngjarnt, en mér þykir það ekki. Nú vil ég að haft sé í huga að ég er maður utan trúfélaga. Ég lét ekki ferma mig, var skírður í Óháða söfnuðinum en var aldrei í honum þó. Engu að síður þekki ég marga sem hafa þurft að leita sér aðstoðar Þjóðkirkjunnar, Ásatrúarhópsins, Búddistasamtakanna, Múslimafélagsins og margra annarra. Vona að ég fari rétt með nöfnin á þessum hópum :) Ég vil ekki að fólk fái ekki notið handleiðslu þeirra þar sem að ég veit að all flestir þessir hópar og öfl vinna gott starf sem skilar heilbrigðara samfélagi. Kveðja á ykkur öll,Gísli Kr.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.