Mínar áherslur í nýrri stjórnarskrá- # 6978 Gísli Kr. Björnsson

Kæru félagar,

Nú styttist í kosningar, þessar sögulegu kosningar sem gefa þér og okkur öllum vald til að setja okkur nýjan samfélagssáttmála. Ég ákvað í upphafi umræðunnar að bjóða mig fram til stjórnlagaþingsins, enda tel ég mig eiga fullt erindi þangað. Af hverju, kann einhver að spyrja? Jú ég get svarað því. Lífsreynsla mín er það fyrsta sem ég treysti á að skili góðum verkum í nýja stjórnarskrá. Ég hef gengið töluvert annað en hinn gullna meðalveg, ég tók nokkur skref út á við og sökk í hyldýpi áfengisneyslu sem mér tókst að krafla mig upp úr. Ég fór óhefðbundnar leiðir í menntamálum, stefndi alla tíð á lögfræði en staðnæmdist lengi vel í múrverki og húsasmíði. Ég sýndi snemma dugnað, árvekni og hef lifað sjálfstæðu lífi allt frá unglingsárum. Allt þetta, sem gróflega er dreypt á, ýtti undir og efldi rökhugsun mína sem aftur leiddi til þess að ég á auðvelt með að sjá brotalamir á samfélaginu sem mig langar til að lagfæra með nýrri stjórnarskrá.Og hverjar eru mínar áherslur í nýja stjórnarskrá?1.       Að skerpt verði á þrígreiningu ríkisvaldsins. Að mínu mati eiga ráðherrar ekki að sitja á þingi. Þannig eru áhrif þeirra á lagasetningu of sterk, enda alþekkt sú staðreynd að þingmannafrumvörp daga uppi og verða að engu, á meðan að frumvörp ráðherra, svokölluð stjórnarfrumvörp, renna í gegn. Þetta hefur lamandi áhrif á störf Alþingis, en þingmenn eru hinir lýðkjörnu fulltrúar.  2.       Að skerpt verði ábyrgð ráðherra og nýjar og sanngjarnar ákæruleiðir verði settar vegna ábyrgðar þeirra. Að mínu mati eiga að vera reglur um ábyrgð þingmanna einnig. Ábyrgðin á að vera þannig úr garði gerð að gerist ráðherra eða þingmaður sekur um brot á ábyrgðinni eigi hann að sæta refsingum. Áður en það er gert þarf að sjálfsögðu að sækja mál á hendur honum eftir skýrum og opnum reglum, en ekki reglum á borð við hinar óljósu og óskýru Landsdómsreglur sem finna má í dag. 

3.       Að skilgreina skattaheimildir stjórnvalda. Í núverandi stjórnarskrá eru tvö ákvæði sem heimila ríkinu að krefjast skatta af þegnum þess, 40. gr. og 77. gr. Í 72. gr. er síðan eignaréttur manna viðurkenndur og kveðið á um að hann sé friðhelgur, þó með þeirri takmörkun sem þar er kveðið á um heimild til eignarnáms. Þó svo að almennt sé ekki litið á skatttöku sem eignarnám í skilningi 72. gr. þá hafa fræðimenn jafnan fjallað um tilgang og eðli skatta í skrifum um eignarétt. Þar er gjarnan talað um augnamið skattlagningar, tilgang skatta og svo fram vegis. Jafnan er einnig um það skrifað að þjóðnýting eigna sé ekki heimiluð á meðan eignaréttarákvæði stendur eins og það er. Að sama skapi ætti ríki ekki að vera heimilt að yfirtaka skuldir einstaklings eða ákveðins hóps manna á kostnað skattgreiðenda. Hér má þó ekki gæta Pollýönnuhugsunar, heldur að miðað verði við eitthvað hlutlægt til úrlausnar því hvort að það sé samfélaginu betra að það sé gert. Með öðrum orðum að slík vinna að baki ákvörðunar sem þessarar leiði til þess að a) þjóðin gæti haft eitthvað um það að segja, ég minni sterklega á Icesave málið í þessu samhengi, og að stjórnvöld sýndu að þau hefðu reynt aðra möguleika til þrautar fyrst. Þjóðin á ekki að vera varaventill eða ábyrgðaraðili fyrir fjármagnseigendur. Jafnframt ætti að vera sett samhengi á milli þess að skuldir einstaklings séu látnar falla á þjóðarbúið og heimildar til að ganga að eignum hans á grundvelli eignarnáms sem greiðslu fyrir ábyrgð þjóðarinnar. Þannig gætu aðilar sem slíkt stunda nú um mundir ekki leikið sama leikinn æ ofan í æ.

4.       Málskotsréttur þjóðarinnar. Mikilvægt umfjöllunarefni þar sem íslenska þjóðin hefur margoft búið við það að ákvarðanir stjórnvalda renna í gegnum þingið án þess að þjóðin hefði nokkuð um það að segja. Nýlegir þjóðréttarsamningar sem við höfum undirgengist, t.d. á sviði umvherfisréttar, hafa ekki náð að styrkja þennan rétt. Einungis tvisvar hefur forseti beitt synjunarvaldi 26. gr. stjórnarskrárinnar, sami forsetinn í báðum tilvikum. Þennan rétt á þjóðin að hafa nái ákveðið hlutfall sér saman um að beita honum, þingmenn að fengnu ákveðnu hlutfalli og síðan forseti. Stjórnvöld hafa sýnt að þess er þörf, ráðamenn hlusta lítið á skoðanakannanir, jafnvel taka þeir ekki mark á fjöldamótmælum. Þessi réttur má þó ekki vera þannig að gangi yfir þjófabálk, það má ekki vera það auðvelt að beita honum að þjóðaratkvæði séu of tíð. Hóflegt hlutfall landsmanna, t.d. 15-25%, ákveðið hlutfall þingmanna, t.d. 35-50% eða svo ætti að minnsta kosti að þurfa til að krefjast megi þjóðaratkvæðagreiðslu.

5.       Jafnræðishugtakið víkkað út. Jafnræðishugtakið verði þannig úr garði gert að það nái til allra, sé fyrir alla og gildi um alla. Þetta þarf ekki að hártoga mikið, bara að skilja.

6.       Jafnræði trúfélaga styrkt. Ég hef talað fyrir því að jafnræði sé styrkt á milli trúfélaga, og með því móti að aðskilja á milli ríkis og kirkju þá tengingu sem er umfram ríkisins við önnur trúarbrögð. Ég tel að tilgangur trúmála sé of mikill og of náinn þjóðinni til að ríkið, s.s. samfélagið, styrki rekstur þeirra. Við þekkjum það öll að lenda í áföllum, einhver deyr, hjónaskilnaður skellur á, slys ber að höndum... svo ekki sé minnst á aðstæður eins og bankahrunið. Við aðstæður sem þessar skapast gríðarleg þörf hjá mörgum að leita sér sáluhjálpar. Starfsmenn trúfélaga hafa tjáð mér að ásókn í handleiðslu þeirra sé mikil og skipti tugum manna á mánuði sem leita sér slíks. Verði skilið á milli fjárstyrks ríkisvalds og trúfélaga er einsýnt að kostnaður við þetta lendi á einstaklingunum sjálfum sem eru þurfandi. Mörgum kann að þykja það sanngjarnt, en mér þykir það ekki. Nú vil ég að haft sé í huga að ég er maður utan trúfélaga. Ég lét ekki ferma mig, var skírður í Óháða söfnuðinum en var aldrei í honum þó. Engu að síður þekki ég marga sem hafa þurft að leita sér aðstoðar Þjóðkirkjunnar, Ásatrúarhópsins, Búddistasamtakanna, Múslimafélagsins og margra annarra. Vona að ég fari rétt með nöfnin á þessum hópum :) Ég vil ekki að fólk fái ekki notið handleiðslu þeirra þar sem að ég veit að all flestir þessir hópar og öfl vinna gott starf sem skilar heilbrigðara samfélagi.  Kveðja á ykkur öll,Gísli Kr.

Svör mín við spurningum Samtakanna ´78

‎1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?

Viðhorf mín til þessa fólks sem talið er upp í spurningunni, sem einhverra óréttmætra atvika vegna hefur orðið að sérhópum, eru í engu frábru…gðin til annars fólks almennt. Eina krafan sem ég geri til fólks er að það sé sjálfu sér samkvæmt og heiðarlegt. Ég sé ekki mun á fólki eftir því hvern og af hvaða kyni það elskar eða hvort það telur sig af réttu kyni eður ei. Sem samfélag höfum við að mínu mati lofað allri aðstoð sem völ er á til að hverjum og einum geti liðið sem best. Því miður hefur samfélagið ekki getað heiðrað það loforð að fullu.

Öll erum við manneskjur og sem slíkar njótum við mannréttinda sem eru óaðskiljanleg hverjum og einum einstaklingi, óháð excel töflum sem t.d. vísindi, trúfélög, fræðimennska eða þröngsýni hafa búið til sem „norm“. Þessi norm henta alls ekki öllum, sumir afvegaleiðast á verri brautir, sumir líða mikla sálarkvöl og enn aðrir falla frá. Slíkt verður aldrei rakið til sérstöðu hvers einstaklings, heldur viðbragða samfélagsins við honum hverju sinni.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?

Ég mun heilshugar og af alefli styðja viðbótina um bann við mismunun vegna kynhneigðar í jafnræðishugtak stjórnarskrárinnar, en berjast af alefli gegn útilokun á því.

Ég óska jafnframt eftir fleiri ábendingum um hugtakaviðbætur varðandi jafnréttishugtakið.

3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?

Ég er jákvæður í garð allra sem það verðskulda sem góðar manneskjur fyrst og fremst. Ég hef alltaf stutt baráttu fólks sem vegna skilningsleysis samfélagsins eru settir í minnihlutahópa og geri það áfram, innan og utan stjórnarskrár

Kær kveðja,

Gísli Kr. Björnsson- #6978



 


Fyrirspurn um aðskilnað ríkis og kirkju og svarið mitt við henni

Mér barst þessi fyrirspurn á facebook síðunni minni :

http://www.facebook.com/home.php?#!/pages/6978-Gisli-Kr-Bjornsson-a-stjornlagabing/161054820600265  

"sæll mig langar að vita hver afstaða þín til kirkjunnar okkar er ? viltu aðskilnað kirkju og ríkis ?"

Og hér er svarið mitt:

Þetta þrætumál hefur vakið umræðu á nokkurra ára fresti. Í stjórnarskrám nágrannaríkja okkar eru ákvæði sem á einhvern hátt tryggja þjóðkirkju umfram önnur trúarbrögð, ég bendi í þessu samhengi á 66. gr. dönsku stjórnarskrárinnar og 2. gr. ...norsku stjórnarskrárinnar. Þessi ákvæði eru opin, álíka opin og okkar ákvæði í 62. gr. og fela í sér loforð ríkisins um stuðning. Það er þó hvergi minnst á fjárstuðning, heldur er í 3. mgr. 64. gr. ákvæði um að menn utan trúfélaga skuli greiða til Háskóla Íslands í stað þess að greiða til trúfélaga. Ég greiði t.d til Háskóla Íslands þar sem ég er ekki aðili að neinu trúfélagi, var skírður í Óháða söfnuðinn en gekk úr honum og er utan trúfélaga í dag. Það þýðir þó ekki að ég sé trúlaus, heldur bara það að ég vil ekki fá á mig stimpil trúfélaga.

Ég er andvígur mismunun hverskonar og tel að jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar eigi að gilda yrir stuðning ríkis við öll trúarbrögð. Í þessari afstöðu minni felst að ég tel að öll trúfélög eigi að sitja við sama borð þegar kemur að stuðningi. Þau ættu að mínu mati að fá jafnan fjárstyrk, jafna möguleika á helgihaldi og jafnan möguleika á kynningum. Að öðrum kosti er hætt við að þessi mál fari úr böndunum, og bendi í þessu samhengi á USA þar sem trúfélög „markaðssetja“ sig með öðrum hætti en hér gerist.

Ég tel að í sjálfu sér verði enginn ávinningur af því að skera á milli ríkis og kirkju sérstaklega, fæ ekki séð hvað ætti að skána við það varðandi trúmál. Sumir benda á að því fylgi mikil fjárútlát fyrir ríkið sem félli á skattgreiðendur. Að mínu mati er það ekki stóra málið, heldur það að það er ýmis þjónusta sem trúfélög sjá um í daglegu lífi fólks. Allir sem misst hafa einhvern nákominn þekkja það að eiga prest að á tímum sem þessum er dýrmætt, í því felst stoð sem margir hverjir upplifa ekki annars staðar. Við skilnað er fólki skylt að fá hjálp frá presti eða viðlíka persónu annarra trúfélaga. Það hefur hjálpað mörgum í hvora áttina sem er. Áföll, sem ekki gera boð á undan sér, líknarhjálp sem á sér stað á spítölum, sjúkra- og meðferðarstofnunum og annað slíkt, er ómetanleg hjálp óeigingjarns fólks sem réttir út hönd á raunastundu.

Hins vegar finnst mér skorta algerlega á gagnsæji í þessum málum sem öðrum. Þurfum við allar þessar kirkjur? Þurfum við alla þessa presta? Þurfum við öll þessi brauð? Þetta er spurning sem við verðum að spyrja okkur, auk þess að sammælast um í nýjum sáttmála þjóðarinnar um grunngildi að virða trú allra og tryggja jafnræði þeirra á milli.

Lokasvarið er því, nei, ég er andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju í þeirri mynd sem talað er um í dag, en já, ég er fylgjandi einhvers konar uppgjöri og áherslum um gagnsæji í nýrri stjórnarskrá.


Fyrirspurn um aðskilnað ríkis og kirkju- Á að skera þarna á milli?

Ég fékk þessa spurningu fyrr í vikunni, biðst afsökunar á því að hafa ekki rekið augun í hana fyrr, en þakka fyrir hana og reyni nú að svara henni.

"sæll mig langar að vita hver afstaða þín til kirkjunnar okkar er ? viltu aðskilnað kirkju og ríkis ?"

Þetta þrætumál hefur vakið umræðu á nokkurra ára fresti. Í stjórnarskrám nágrannaríkja okkar eru ákvæði sem á einhvern hátt tryggja þjóðkirkju umfram önnur trúarbrögð, ég bendi í þessu samhengi á 66. gr. dönsku stjórnarskrárinnar og 2. gr. norsku stjórnarskrárinnar. Þessi ákvæði eru opin, álíka opin og okkar ákvæði í 62. gr. og fela í sér loforð ríkisins um stuðning. Það er þó hvergi minnst á fjárstuðning, heldur er í 3. mgr. 64. gr. ákvæði um að menn utan trúfélaga skuli greiða til Háskóla Íslands í stað þess að greiða til trúfélaga. Ég greiði t.d til Háskóla Íslands þar sem ég er ekki aðili að neinu trúfélagi, var skírður í Óháða söfnuðinn en gekk úr honum og er utan trúfélaga í dag. Það þýðir þó ekki að ég sé trúlaus, heldur bara það að ég vil ekki fá á mig stimpil trúfélaga. Ég er andvígur mismunun hverskonar og tel að jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar eigi að gilda yrir stuðning ríkis við öll trúarbrögð. Í þessari afstöðu minni felst að ég tel að öll trúfélög eigi að sitja við sama borð þegar kemur að stuðningi. Þau ættu að mínu mati að fá jafnan fjárstyrk, jafna möguleika á helgihaldi og jafnan möguleika á kynningum. Að öðrum kosti er hætt við að þessi mál fari úr böndunum, og bendi í þessu samhengi á USA þar sem trúfélög „markaðssetja“ sig með öðrum hætti en hér gerist. Ég tel að í sjálfu sér verði enginn ávinningur af því að skera á milli ríkis og kirkju sérstaklega, fæ ekki séð hvað ætti að skána við það varðandi trúmál. Sumir benda á að því fylgi mikil fjárútlát fyrir ríkið sem félli á skattgreiðendur. Að mínu mati er það ekki stóra málið, heldur það að það er ýmis þjónusta sem trúfélög sjá um í daglegu lífi fólks. Allir sem misst hafa einhvern nákominn þekkja það að eiga prest að á tímum sem þessum er dýrmætt, í því felst stoð sem margir hverjir upplifa ekki annars staðar. Við skilnað er fólki skylt að fá hjálp frá presti eða viðlíka persónu annarra trúfélaga. Það hefur hjálpað mörgum í hvora áttina sem er. Áföll, sem ekki gera boð á undan sér, líknarhjálp sem á sér stað á spítölum, sjúkra- og meðferðarstofnunum og annað slíkt, er ómetanleg hjálp óeigingjarns fólks sem réttir út hönd á raunastundu.

Hins vegar finnst mér skorta algerlega á gagnsæji í þessum málum sem öðrum. Þurfum við allar þessar kirkjur? Þurfum við alla þessa presta? Þurfum við öll þessi brauð? Þetta er spurning sem við verðum að spyrja okkur, auk þess að sammælast um í nýjum sáttmála þjóðarinnar um grunngildi að virða trú allra og tryggja jafnræði þeirra á milli.

Lokasvarið er því, nei ég er andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju í þeirri mynd sem talað er um í dag, en já, ég er fylgjandi einhvers konar uppgjöri á áherslum um gagnsæji í nýrri stjórnarskrá.


ESB ákvæði í stjórnarskrá?

Það sem ég velti fyrir mér í dag er hvort að það eigi að vera einhvers konar ákvæði í íslensku stjórnarskránni sem að heimilar þinginu og ríkinu að ganga til samstarfs eða draga sig úr slíku samstarfi fyrir hönd þjóðarinnar. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er sú að nú standa yfir viðræður um ESB hvort að verði farið í aðildarviðræður. Eðlilegast teldi ég að þing og ríkisstjórn hefði þessa heimild án þess að binda þjóðina með því einu saman. Síðan þyrfti að fara fram þjóðarkosning um inngönguna. En hvernig ætti þetta að vera ef að framtíðarkynslóðir vildu draga slíkt samstarf til baka? Ætti það þá að fara fram með öfugri aðferð? Fyrst fá heimild þjóðarinnar til að leita eftir vilja sambandsins til að segja upp samningnum, síðan að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram um það? Eða ætti þing og ríkisstjórn að hafa þessa heimild?

Sjálfur er ég hlyntur ákvæði sem heimilar "eðlilegar" samningaviðræður, en það þarf að skilgreina hvað er eðlilegt í því samhengi. Ég óska eftir tillögum og ábendingum :)


Stjórnskipun Íslands og þrískipting ríkisvaldsins- Eiga að vera persónuleg tengsl á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds?

Umræðan um stjórnlagaþing fer hátt þessa dagana, 523 frambjóðendur hafa boðið fram krafta sína til að taka til í stjórnskipan landsins og þeir hafa nú fengið úthlutað númerum til að auðvelda kjósendum valið. En um hvað eiga kosningarnar að snúast?

Byrjum á að taka til skoðunar hvert hlutverk stjórnskipunar er. Stjórnskipun er rammi æðsta valds hvers ríkis. Stjórnskipun er því æðri Alþingi sjálfu, æðra ríkisstjórninni og æðra dómsvaldinu. Hún er með öðrum orðum æðri hinu þrískipta ríkisvaldi, því að valdhafinn og stjórnarskrárgjafinn er þjóðin sjálf, þ.e. fólkið sem mótar þessi grundvallarlög. Hlutverk þessa ramma er að setja leikreglur um háttsemi valdhafa hins þrískipta ríkisvalds gagnvart þegnum þess, þ.e. þjóðinni. Til að reglur þessar nái markmiði sínu verða þær að vera gagnsæjar, almennar og sanngjarnar. Til að útfæra reglurnar hefur Alþingi verið veitt það hlutverk í núverandi stjórnarskrá að  útfæra lög sem þrengja síðan hlutverk reglnanna að samskiptum mannanna við stjórnvöld. Dómsvaldinu hefur síðan verið veitt vald til að túlka reglurnar þegar ágreiningur hefur risið og framkvæmdavaldinu hefur verið veitt vald til að framkvæma og gera gjörninga sem byggja á reglunum. Hingað til hefur stjórnskipun grundvallast á þremur grundvallarreglum, lögmætisreglu, jafnræðisreglu og andmælareglu. Þessar reglur þýða að ekki má setja lög sem ganga í bága við stjórnskipun og ekki má setja stjórnvaldsfyrirmæli sem gagna í bága við lög, að ekki skuli mismunað með lögum og að menn hafi rétt til andmæla, hvort heldur sem er fyrir dómsvaldi eða framkvæmdavaldi. Þrískipting ríkisvaldsins er jákvæð afleiðing byltinganna í Ameríku og Evrópu í lok 18. aldar og í upphafi 19. aldar þegar fólk reis upp gegn einræði konunga og líkra einvalda.

Þetta er mikið vald sem fólkið hefur framselt til ríkisvaldsins þrískipta. Mikið traust sem lagt er á þingmenn, mikið traust sem lagt er á framkvæmdavaldið. Traustið sem sett er á dómstóla er einnig mikið, en þó er það með öðrum hætti. Þessir þrír pólar eiga að virka sem aðhald hver á anna, þ.e. ef að einn fer fram úr sér þá eiga hinir að grípa inn í og tempra þess vald. Og rétt eins og með stjórnarskránna þá er fólkið einnig valdgjafi Alþingis. Sú hefð hefur ríkt að sá flokkur eða þeir flokkar sem stærsta kosningu fá myndi ríkisstjórnina. Það leiðir af þingræðisreglunni, óskrifaðri reglu sem gengur út á það að svo lengi sem ríkisstjórn nýtur traust, eða a.m.k. fær ekki á sig vantrauststillögu þingsins, er henni fært að vera við völd. Um leið velja þessir flokkar sér ráðherra og mynda ríkisstjórn. Þessi mynd skekkir tilgang þrískiptingar ríkisvaldsins því að augljós og alltof mikil tengsl eru á milli valdhafa á þinginu og ríkisstjórnarinnar. Þessu til stuðnings má benda á hina áralöngu umræðu um þingmannafrumvörp og stjórnarfrumvörp til laga á Alþingi. Þingmannafrumvörpin daga uppi á meðan stjórnarfrumvörpin fara greiðlega í gegn, flest hver. Vopn stjórnarandstöðu eru því engin til að sporna við vondri lagasetningu þar sem meirihluti þingmanna hverju sinni er í sömu flokkum og ráðherrarnir. Sjálfstæði þingmanna verður því minna og hlutverk þeirra óljósara. Með tímanum hafa þingmenn orðið að einskonar já-röddum ríkisstjórnanna. Þar með er tilgangur þingsins orðinn veigaminni og hlutverk stjórnskipunarinnar óljósara. Framkvæmdavaldið hefur allt í hendi sér og getur trompað útspil þings og dómsvalds með auðveldum hætti.

Nú um mundir hefur reynt gífurlega á hið þrískipta ríkisvald. Án þess að gera það að aðal umræðuefni þessarar færslu þá er ljóst að þingið, ríkisstjórnin og dómsvaldið nýtur lítils trausts. Í færslu sinni frá 30. október „Hví þverr traustið?“ veltir Þorsteinn Pálsson því fyrir sér hver orsökin fyrir því sé að hið þrískipta ríkisvald nýtur svo lítils trausts sem raun ber vitni. Án þess að hann komist að einhverri konkret niðurstöðu veltir hann upp því sem mætti líta á sem upphafspunkt í umræðunni til að komast að niðurstöðu í framtíðinni:

„Svarið við vantraustinu er hvorki aukin sundrung með persónukjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum né einn sterkur leiðtogi með eina uppskrift. Hér vantar öllu heldur hugmyndafræðilega kjölfestu. Hún auðveldar þingmönnum að treysta á dómgreind sína og láta á hana reyna í sókn og vörn andspænis kjósendum. Það eflir traustið.“

Þorsteinn hittir naglann á höfuðið. Hér hefur í gegnum tíðina verið snöggur blettur á hugmyndafræði manna í þessum efnum, lítið hefur verið lagt fram sem leitt gæti í ljós nýjar hugmyndir. Kannski má segja að lítið hafi verið um tækifæri til að koma þeim á framfæri og menn kannski í raun ekki verið uppteknir við þennan hluta stjórnskipunarinnar. Nú hins vegar gefst tækifæri fyrir þjóðina til að láta hugmyndir í ljós og setja fram kröfur um það hvernig þessum málum er háttað. eftir hrun hafa menn einkum komið með hugmyndina um persónukjör og að sú aðferð muni takmarka áhrif ráðherra á þinginu. 

Þessar hugmyndir eru góðra gjalda verðar. Persónukjör gæti auðvitað haft takmarkandi áhrif á völd framkvæmdavalds, . Á það hefur þó lítið reynt hér á landi, en þó má finna dæmi úr mannkynssögunni þar sem menn náðu völdum með persónutöfrum og gátu gerst einvaldar á grundvelli þess. Ekki geri ég meira úr þeim áhyggjum í bili. Þessi orð má ekki túlka sem andstöðu mína við persónukjör, enda er ég þeim alls ekki andvígur. Ég teldi farsælast að bæði einstaklingar og flokkar geti boðið sig fram til þings. Hins vegar tel ég þessa breytingu eina og sér langt í frá að vera nóg til að tryggja sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.

Það sem myndi tryggja það hins vegar er að ekki sé blöndun á þingmönnum og ráðherrum. Helst vildi ég sjá algera skiptingu þarna á milli. Ég myndi vilja að forsætisráðherra væri þjóðkjörinn sem Alþingismaður en að þingið kysi ráðherra úr röðum þingmanna og að hann veldi sér meðráðherra, sem lúta hans ábyrgð. Helst teldi ég heppilegast að hann kæmi úr röðum þingmanna en segði af sér sem þingmaður þegar þingið hefur valið hann sem forsætisráðherra. Það væri til þess að þingið gæti haft tögl og haldir í því að reka hann ef hann réði ekki við þann vanda sem glímt er við hverju sinni og gert honum að sæta ábyrgð. Síðan gæti það valið nýjan forsætisráðherra. Meðráðherrarnir væru síðan alfarið á ábyrgð forsætisráðherra, til þess að hann geti haft yfirsýn yfir verk þeirra og gert þeim að víkja sæti ef þeir valda ekki hlutverki sínu.

Þessi leið byggir að hluta til á því kerfi sem er í Bandaríkjunum, en þar velur þingið forsetann úr röðum flokka og persónukjörs. Þar er þó engin leið til að láta hann fara eða reka hann. Þetta myndi ég telja að væri kjörin leið til að þingmenn, hvort heldur sem er flokksbundnir eða í sæti eigin persónu, geti látið eigin sannfæringu ráða för við störf sín í þágu þjóðarinnar. Með þessum hætti mætti einnig gera ábyrgð þeirra ríkari gagnvart ríkisstjórn og auðveldara að gera ráðherrum að sæta refsingum og viðurlögum. Það er þó alls ekki aðalatriðið, heldur það að með þessu væri ennfrekar verið að treysta þrískiptingu ríkisvaldsins og þar með að tempra vald þess og setja því skarpari mörk gagnvart stjórnskipuninni. Þetta er hægt að tryggja með nýrri stjórnarskrá.

Undirritaður hefur boðið sig fram til stjórnlagaþings og hefur fengið framboðsnúmerið 6978.


Framboð mitt til stjórnlagaþings

Kæri lesandi,  

Ég býð mig fram af einskærum áhuga og af íslenskri bjartsýnisvon um bætt ríki eftir þessa hörmungartíma sem við lifum nú. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands inniheldur æðstu lög landsins.

 

Ákveðin tilvik hafa sýnt að það þarf að skerpa á ákvæðum hennar og gera hana hnitmiðaðri. Stjórnarskrá á að innihalda fastheldið form ákvæða sem ekki býður upp á þrætur um lögskýringar í erfiðum málum. Hún þarf að innihalda leiðbeiningar um hvernig eigi að leysa úr málunum með ótvíræðum hætti. Fyrirmæli um störf og ábyrgð ráðamanna ásamt skýrum fyrirmælum um hvernig skipting slíkrar ábyrgðar fellur. Síðast, en alls ekki síst, á stjórnarskrá að vera skjól mannréttinda, en það var upphaflegur tilgangur stjórnarskráa um víða veröld fyrir um 200 árum síðan. Þau mega aldrei gleymast. Til þess að svo megi vera þarf að vera sterk stjórnarskrá, samin af fólkinu fyrir fólkið, að kveða með skýrum hætti á um skiptingu ríkisvalds, ásamt því setja framkvæmdavaldinu og löggjafavaldinu skýr mörk gagnvart frelsi, framtíð og öryggi fólksins. Þá fyrst er tilgangi stjórnarskrárinnar náð.

Þetta eru mínar áherslur í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og ég vona að þær gagnist þér.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband